Hér eru tilgreind þau viðmið sem notuð eru við mat á því sem telst eðlilegt og hvað ekki þegar kemur að ástandi ökutækja við skil að leigutíma loknum. Mat er ávallt háð aldri ökutækja og akstursnotkun í samræmi við samninga.
Við mat á ástandi er ávallt reynt að meta ástand ökutækja með sanngjörnum hætti og leitast við að lagfæra hluti frekar en að endurnýja þá.
Ástandsskoðun ökutækja við lok samningstíma fer fram hjá aðila sem FLEX útnefnir. Ökutæki fara í gegnum staðlaða ástandsskoðun og heildarástand ökutækis metið. Við ástandsskoðun er gert matsyfirlit þar sem tilgreindar eru niðurstöður s.s. tjón, gallar og það sem vantar miðað við upprunalega lýsingu ökutækisins.
Það sem telst Í LAGI og EKKI Í LAGI við notkun og slit bíla hjá FLEX. Í samningnum eru dæmi um mat á notkun og sliti bíla og þau útskýrð með myndum sem sýna hvað telst vera eðlilegt og hvaða atriði teljast ekki vera í lagi. Reglurnar um mat bíla að loknum samningstíma eru unnar í samráði við fagaðila og tilgangur þeirra er að viðskiptavinir FLEX hafi skýra mynd af því hvað teljist vera eðlilegt ástand bíla við lok samningstíma. Viðskiptavinum FLEX sem leigja bíla ber skylda til að kynna sér þessar reglur og tryggja að allir notendur bílanna þekki þær.
Þegar matsaðili hefur lokið við mat á bíl afhendir hann leigutaka matsyfirlit þar sem fram koma allar skemmdir og tjón sem ekki falla undir það sem talist getur eðlilegt slit á samningstíma. Á matsyfirlitinu er farið yfir hvaða atriði er nauðsynlegt að lagfæra og áætlaður heildarkostnaður við lagfæringar tekinn fram.
- Allir lyklar
- Upplýsingar um bílinn
- Þjónustu- og smurbók
- Skjáir
- Mottur
- Farangurshlíf (gardína í skotti)
- Farangursgrind
- Varadekk
- Verkfæri og tjakkur til hjólbarðaskipta
- Öryggisbúnaður sem fylgdi með s.s. þríhyrningur, sjúkrakassi eða vesti
- Ef vetrarhjólbarðar eru hluti af viðkomandi leigusamningi þurfa þeir að fylgja með ásamt boltum. Sama á við um sumarhjólbarða, ef skil á bifreið á sér stað að vetri til.
Hér er hægt að nálgast prentvæna PDF útgáfu af þessum skilmálum þar sem tilgreind eru þau viðmið sem notuð eru við mat á því sem telst eðlilegt og ekki eðlilegt þegar kemur að ástandi ökutækja þegar þeim er skilað að leigutíma loknum.